top of page

Afríka - Marokkó

  • gardarorn4
  • Apr 29, 2023
  • 4 min read

Elsku Marokkó, loksins kom ég hingað! Langað að koma hingað mjög lengi en aldrei látið verða að því, en núna lét ég verða að því. Eitt orð, STÓRKOSTLEGT!


Ég byrjaði ferðalagið í Fes, var þægilegt klukkutíma flug þangað frá Alicante. Fes hefur einn elsta og best farna gamla bæ í landinu, en hann er frá 9.öld. Nýja Fes er frá því á 13.öld og svo er Nýjasta Fes sem er frá 20. öld og er nútímaleg. Ég gisti í elsta hlutanum, en það var mælt sérstaklega með að gista í svokölluðu Riad, sem eru eins konar heimagistingar og bjóða yfirleitt upp á ekta heimagerðan mat. Gamli bærinn, eða Medina eins og hann er kallaður, er merkilegur fyrir þær sakir að öll umferð rafknúina ökutækja er bönnuð, aðeins er hægt að ferðast um Medina fótgangandi eða á hestum eða ösnum. Húsin eru steinhús og þau eru byggð inn á við, það er að maður veit aldrei hvað er innan veggja húsana. Daginn eftir að ég kom fékk ég leiðsögumann til þess að fara með mig um Medina, vorum í nærri 5 klukkutíma að þræða þessar litlu götur, markaðssvæði og fleira. Það er gríðarlega mikið af handverki í borginni, málm, tré, teppagerð og fleira. Mér fannst sérstaklega merkilegt að sjá svæðið þar sem þeir lita skinn, en það hefur verið eins gert síðan á 16.öld, ansi magnað. Margt fleira magnað sem ég sá, og margir sölumenn sem vildu selja mér allt og sálu sína, eins og þekkt er hér í landi.

Fleiri myndir frá Medina

Eins og ég sagði áðan, þá skiptist borgin í þrjá parta og var mér ráðlagt að fara og skoða miðhlutann, þennan frá 13.öld. Hann er allt öðruvísi en Medina, Medina er innan borgarvirkis, en miðhlutinn utan borgarvirkis. Þar er staðsett stórt markaðssvæði þar sem sölumennirnir voru einstaklega uppáþrengjandi þannig að ég flýtti mér í burtu þaðan. Gekk upp að höllinni og átti góðan tíma í grasagarðinum, sem var kærkomin hvíld frá öllu atinu í borginni.

Ég ákvað svo að fara í dagsferð út fyrir borgina. Ég fór upp í Atlas fjöllin sem eru staðsett rétt fyrir utan borgina, eða þeir kalla það svæði Mið-Atlas fjöllin. Þetta var ótrúlega skemmtileg ferð, fékk minn einka bílstjóra sem keyrði mig um allt og sagði mér hvað ég ætti að skoða, en oftast var ég röltandi um litlu þorpin á eigin vegum. Mikil náttúrufegurð og gaman að koma þarna, enda kalla Marokkóar þetta svæði Sviss Arabíu. Stoppuðum í þremur þorpum og röltum um, fórum inn í skóg þar sem ég fékk að sjá apa og gefa þeim hnetur og tómata, var sjúklega skemmtilegt. Síðan keyrðum við um fallegt og skemmtilegt landslag.

EIns og ég sagði þá gisti ég í svokölluðu Riad á meðan ég var í Fes, og var komið þar fram við mig eins og ég væri kóngur. Þeir vildu allt fyrir mig gera og báru mig á höndum sér. Þeir buðu upp á kvöldmat og ég tók þá ákvörðun að borða þar á hverju kvöldi því það var eins og að fá heimilismat á hverjum degi. Maturinn samanstóð alltaf af nokkrum litlum grænmetisréttum í forrétt, síðan Tanjine ýmist með nauti eða kjúkling í aðalrétt og svo einhver eftirréttur. Maturinn var alveg sjúklega góður, samt kannski heldur mikið af ólífum fyrir minn smekk, en þetta er allt að koma, ég borða þær bráðum! Morgunmaturinn samanstóð líka af alls konar litlum diskum með hinu og þessu ásmt brauði og eggi. Allur matur sem ég smakkaði í Marokkó var geggjaður, með því betra sem ég hef fengið. Nokkrar matarmyndir, gjörið svo vel.

Eftir frábæran tíma í Fes var komið að næstu borg. Fyrir valinu varð Rabat, sem er höfuðborg landsins. Hún er líka með svona skemmtilegum gamla bæ, Medina, og þar gisti ég aftur í Riad, en það var ekki alveg jafn flott og í Fes, og ekki boðið upp á kvöldmat. Gamli hlutinn var talsvert minni heldur en í Fes en mjög skemmtilegur samt. Ég var samt mjög hrifinn af borginni sjálfri, hún liggur við Atlantshafið og það rennur mjög skemmtileg á í gegnum borgina þar sem fólk kom mikið saman, borðaði og gladdist.

Ég ákvað að taka lestina einn daginn yfir til Casablanca, en það var ekki nema klukkutíma löng lestarferð þangað. Casablanca er stærsta borg landsins en hún hefur séð sinn fífil fegurri og ekkert sérstaklega mælt með að vera þar í langan tíma. Ég hafði samt gaman af því að fara þangað og skoða mig um. Ótrúlega falleg moska sem er sú stærsta í landinu niðri við sjóinn, gat samt ekki komist þar inn. Gekk í gegnum hverfi sem var ansi sjabbí, en fólk virtist ánægt og glatt með lífið þarna. Nýrri hlutinn var svona stórborgarstíll með háum húsum og mikilli umferð.

Þetta voru frábærir tíu dagar í Marokkó og ég er ákveðinn í að koma aftur hingað, margir staðir sem ég á eftir að sjá og skoða, til dæmis þeirra frægasta borg, Marrakesh. Ég mæli með ferð til Marokkó fyrir alla, þægilegt að vera hérna, allir mjög almennilegir og geggjaður matur og það þarf enga vegabréfsáritun inn í landið.

En núna er kominn tími til að halda ferðalginu áfram. Sit núna á Casablanca flugvellinum og bíð eftir flugvél til að flytja mig til Cairo í Egyptalandi þar sem ég ætla að staldra við í fjóra daga. Flugið er nú þegar komið í þrjár klukkustundir í seinkun, en það verður að hafa það!

Næsta blogg verður því frá Cairo, takk fyrir lesturinn og hafið það sem best.




1 Kommentar


ninajonsdottir
ninajonsdottir
01. Mai 2023

Magnað Garðar og maturinn fallegur maður minn 😋 Mig langar líka til Marokkó!

Gefällt mir
bottom of page