top of page

Land fjórtán, Nýja Sjáland, Suðureyjan (Te Waipounamu)

  • gardarorn4
  • Mar 4, 2023
  • 6 min read

Nýja Sjáland, hvaða orð er hægt að nota? Náttúruparadís er sennilega sterkasta orðið, en ég gæti notað fjöldamörg önnur, og mun gera það í næstu skrifum :) Eins og ég kom inn á í síðasta bloggi þá flaug ég frá Ástralíu og beint hingað á Suðureyjuna, til Christchurch. Þeir sem ekki vita, Nýja Sjáland samanstendur af tveimur eyjum, annars vegar Suðureyjan (Te Waipounamu) og hins vegar Norðureyjan (Te Ika-a-Máui). Eins og sjá má á nafni Norðureyjarinnar þá voru frumbyggjar hér Márar fyrir fjöldamörgum árum, og voru þeir fyrst og fremst á Norðureyjunni eða um 70%, en um 30% voru á Suðureyjunni. Eyjarnar eru líka ólíkar, bæði náttúran og veðurfarslega. Hér á Suðureynni eru það sem þeir kalla Suður-Alparnir, mikil og stór fjöll, hér eru jöklar, ár og fossar og vogskorin ströndin. Eins er mikið af stöðuvötnum og gróðri. Hér er kalt á veturna og mörg þekkt skíðasvæði því það snjóar talsvert hér að vetri til. Sumrin eru hins vegar bæði mild og þægileg og ég hef verið heppinn með veður, 20-25 gráður á daginn og 10-15 stig á kvöldin, mjög þægilegt. Sloppið við rigningu ennþá, en það getur rignt talsvert hérna. Já, margt hér er líkt Íslandi, en svo á móti er margt svo ólíkt.

Ég byrjaði ferðalagið á því að vera nokkra daga í Christchurch. Eins og ég sagði frá í síðasta bloggi þá lenti ég í því að fá þessa hrottalegu tannpínu sem hafði mikil áhrif á tímann minn í Christchurch. Ég nenni nú samt ekki að ræða það neitt mikið meira, verkjalyf og sýklalyf hafa hjálpað og ég vona, núna viku síðar að þetta sé verða búið.

Ég ákvað nú samt að dópa mig upp þarna á laugardeginum og fara og skoða borgina eins og ég gæti. Christchurch á sér mjög merkilega sögu. Hún er stærsta borgin á þessari eyju hér og verið kölluð höfuðborg Suðureyjarinnar. Árið 2010 varð gríðarlega stór jarðskjálfti, 7,1 á Richter skammt frá borginni og urðu ansi margar byggingar illa úti. Manntjón varð hins vegar mjög lítið, aðeins létust tveir einstaklingar í þessum stóra jarðskjálfta. Næstu daga og vikur voru miklir eftirskjálftar, en það varð svo í byrjun árs 2011 að mjög stór eftirskjálfti, vel yfir 6 á Richter gekk yfir borgina og í þeim skjálfta hrundu margar byggingar sem höfðu skemmst áður og margir fórust í þeim skjálfta, eða hátt í 200 manns og er talað um að þetta séu næst verstu náttúruhamfarir í sögu Nýja Sjálands. Veit reyndar ekki hverjar voru þær verstu! Anyways, síðustu ár hefur borgin verið að byggjast upp aftur, það hefur tekið langan tíma, oft mikil og flókin tryggingamál, en talið er að um 80% húsa í miðbænum hafi þurft að rífa niður og byggja nýtt í staðinn. Maður upplifir samt mikla bjartsýni í borginni og þeir hafa gert hlutina vel. Ég fór um borð í gamlan sporvagn sem var svona þeirra túristarúta þar sem ég hlustaði á söguna á meðan hann keyrði okkur um borgina, það var alveg ótrúlega skemmtilegt. Síðan rölti ég um, skoðaði allt veggjakrotið, en þeir hafa notað veggjakrot mjög mikið. Ég hefði gjarnan viljað skoða meira af borginni en það býður betri tíma. Seinni part laugardags, allan sunnudaginn og allan mánudaginn var svo þetta tannvesen á mér, flakkandi á milli lækna og tannlækna og í apótek. Fór ekkert út að borða eða á lífið heldur lá bara að mestu fyrir. Ég verð nú samt að segja að ég hef aldrei hitt jafn almennilegan tannlækni og stúlkuna sem ég hitti á mánudeginum. Ef ég ætti heima hérna þá mætti hún vera minn tannlæknir og ég myndi sennilega læknast af tannlæknafóbíuinni sem ég er með. En núna, myndir frá Christchurch.

Á þriðjudeginum leið mér aðeins skárr og langaði mjög mikið að keyra eitthvað í kringum borgina. Ég ákvað því að keyra skaga í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá borginni sem nefnist Banks Peninsula, alveg svakalega fallega leið sem leiddi mig svo að litlu og sætu þorpi sem nefnist Akaroa. Í dag búa þar um 600 manns en þetta var fyrsti bærinn sem Frakkar settust að í og ber bærinn þess aðeins merki, til dæmis með nöfnum á götunum á frönsku, svipað og í Fáskrúðsfirði heima. Ég keyrði síðan aðeins aðra leið til baka sem var ótrúlega falleg, hátt upp í hæðum með miklu útsýni og bara ég og rollur og einstaka beljur. Virkilega skemmtilegur dagur og svæði sem var gaman að skoða.

Á miðvikudeginum var svo kominn tími til að kveðja borgina og halda af stað suður á bóginn. Framundan var um það bil sex klukkutíma keyrsla alla leið til Queenstown í gegnum eyjuna, yfir fjöll og dali, meðfram stöðuvötnum og engjum. Þessi leið svona samanstóð af alls konar náttúru. Fyrri hlutinn var ekkert spes, en svo komu ótrúlega fallegir staðir inn á milli á leið til Queenstown, sérstaklega í kringum Lake Tekapo og Lake Wanaka. Svo þegar þangað var komið tók nú heldur betur náttúrufegurðin við, fjöllin og dalirnir. Ég gisti rétt fyrir utan borgina, upp við fjallgarð sem kallast The Remarkables Mountains, og já, þau voru sko ótrúleg. En hér að neðan eru nokkrar myndir frá keyrslunni og frá fjöllunum.

Fimmtudagurinn var skoðunardagur í kringum Queenstown, semsagt í áttina að bænum. Hann var gjörsamlega pakkaður af túristum og hvergi bílastæði að fá þannig að ég keyrði bara að útsýnisstað og tók myndir yfir bæinn sem er gríðarlega fallegur og stendur við stórt stöðuvatn sem nefnist Lake Wakatipu, svo eru öll fjöllin allt í kring, stórkostlegt. Ég keyrði svo áfram í lítinn bæ 45 mínútur frá Queenstown sem nefnist Glenorchy. Stórkostlegur lítill bær við enda vatnsins þar sem fjalladalir taka svo við. Þess má geta að mikið af Lord of the Rings myndunum voru teknar upp á þessu svæði. Þær voru reyndar teknar upp um allt landið en margt átti sér stað á þessum slóðum og því sérlega gaman að koma þarna. Eftir þessa stórkostlegu upplifun keyrði ég svo til Arrowtown, pínkulítill bær sirka 20 mínútur frá Queenstown. Það sem þessi fallegi litli smábær er þekktastur fyrir er gullgröftur, en þetta var einn af þeim bæjum þar sem þeir leitu að gulli og seldu. Á öldum áður voru það reyndar kínverjar sem fyrst settust hér að og var svæði til minningar um kínverska arfleið þeirra. Ótrúlega skemmtilegt að skoða svona litla bæi, sem eru samt með mikið mannlíf og eru svo notarlegir og þægilegir.

Á föstudeginum var ég nú hálf latur, fór ekki á fætur fyrr en um hádegið og nennti ekki að keyra mikið. Ákvað nú samt að keyra í hina áttina, áfram suðureftir, meðfram vatninu og að enda þess. Það var alveg hreint skemmtileg keyrsla og kom ég í lítinn og sætan bæ sem heitir Kingston og stendur þarna við enda vatnsins. Þar fór ég aðeins út í vatnið til að vaða, hefði svo verið til í að skella mér ofan í en var ekki með sundföt eða handklæði. Þessi bær var svo lítill og sætur og umhverfið alveg stórmagnað, fjöllin og vatnið. Þar var hús til sölu, ekki nema 100 millur takk fyrir, ef ég væri ríkur lallalalala.....

Áfram hélt ég aðeins sunnar og kom þá að pínkulitlum bæ sem heitir Garston þar sem búa 140 manns og er sagður vera sá bær sem er lengst inn í landinu, hvað sem það nú þýðir almennilega :) Það var gaman að koma þangað líka þótt lítið væri að sjá og ekkert við að vera þar.

Jæja, laugardagur og kominn tími til að skella sér aftur í langferð. Framundan fimm tíma akstur yfir á vesturströndina, hátt yfir fjöll og fyrnindi. Og þvílíkur dagur, þvílík keyrsla. Ég held að þetta sé ein fallegasta leið sem ég hef keyrt á mínum ferðalögum, og hef ég nú víða farið! Það var meira og minna allt fallegt sem ég sá. Stöðuvötnin, fjallasýnin, árnar og fossarnir, miklir zik zak vegir upp og niður þangað til ég komst svo á Vesturströndina og að sjónum, Tasman hafinu sem skilur að Nýja Sjáland og Ástralíu, og er víst eitt það haf sem getur verið hvað erfiðast að sigla í því það er alltaf mikill öldugangur þar sem það mætir Kyrrahafinu. Áfram keyrði ég svo upp Vesturströndina að náttstað kvöldsins sem er í litlum bæ sem nefnist Franz Josef Glacier Township, en eins og nafnið gefur til kynna er hann staðsettur hér rétt við Franz Josef jökulinn, sem ég endaði daginn á að ganga upp að útsýnispalli og horfa yfir hann og guðdómlegu náttúrfegurðina í kring. Ég er á svona skemmtilegu svæði sem kallast Holliday Park og samanstendur af svona smáhýsum sem ég er í, sameiginlegum rýmum eins og hostel, tjaldsvæði og tjaldbílasvæði og heilmikið af sameiginlegum eldunarrýmum og svona. Mér finnst ég vera í smá útilegu hérna :)

Ég er semsagt stattur hér núna á leið í bólið, klukkan að ganga miðnætti og ræs snemma í fyrramálið til að halda ferðinni áfram norður eftir upp meðfram Vesturströndinni (nei, ég er ekki að ruglast, áttirnar eru öfugar hérna megin á hnettinum) Næsta blogg verður því sennilega blanda af því sem eftir verður af Suðureynni og fyrstu kynni af Norðureynni, en þangað fer ég með ferju á þriðjudag. Margt eftir að gerast fram að því.

Takk fyrir lesturinn og góða nótt frá hinu fallega Nýja Sjálandi!




1 hozzászólás


ninajonsdottir
ninajonsdottir
2023. márc. 04.

Vá, ekkert smá flott þessi síðasta mynd og já allt hitt líka!

Kedvelés
bottom of page