Land númer 3, Azerbaijan
- gardarorn4
- Dec 3, 2022
- 4 min read
OK, tæknilega land nr 4, en þar sem ég ætla ekki að telja Sameinuðu Arabísku furstadæmin með því ég sá bara flugvöllinn og flugvallarhótelið í Abu Dhabi þá er þetta land nr 3 sem ég er virkilega að njóta. Og þvílíkt land!!! Ég var alveg með frekar háar væntingar áður en ég kom hingað þar sem mig hefur lengi langað hingað en hafði ekki tök á því þegar ég heimsótti hin Kákasus löndin fyrir fimm árum, en landið hefur alveg farið langt fram úr þeim væntingum sem ég hafði. Af hverju? Ég veit það eiginlega ekki. Er auðvitað mest búinn að vera í höfuðborginni Bakú, sem er bara alveg mögnuð borg. Það eru miklar andstæður, hálfgerðir kofar sem eru að hruni komnir og upp í glæsilegustu glerhýsi, og allt þar á milli. Gamli borgarhlutinn, sem er innan borgarmúra í sjálfri borginni er alveg magnaður staður, búinn að rölta þar um allt. Nýji hlutinn er æðislegur, flottar byggingar, ótrúlega skemmtilegt mannlífið, geggjaðir veitingastaðir, sko geggjaðir, allt fullt af flottum styttum hér og þar um borgina og mikið af minningarreitum. Fyrir utan allan eldinn sem þeir halda hér á lofti og logar víða, enda landið sérstaklega þekkt fyrir bæði olíu og jarðgas. Og góð Eurovisionlög :)

Flame Towers
Ég flaug hingað frá Abu Dhabi eldsnemma að morgni miðvikudagsins, átti flug klukkan 6 um morgun, hræðilegur tími og mér leið illa þegar ég stillti vekjarann á 03:20...... Ég flaug með Wizz Air, en þeir eru mikið að stækka í Mið-Austurlöndum og hægt að komast orðið þangað mjög ódýrt, til dæmis frá Budapest og Vín, fyrir utan að það er bara alltaf ljómandi fínt að fljúga með þeim. Ég er með stimpil í vegabréfinu mínu frá Armeníu og bjóst alveg við því að það gæti orðið eitthvað vesen, þar sem Azerar og Armenar eru ekki vinir og hafa í fjölda ára verið að rífast og slást um yfirráð yfir landsvæði sem heitir Nagorno-Karabakh og hafa Armenar hingað til haft vinninginn. Ég var spurður hvað ég hefði verið að gera þar, hvort ég hafi verið ferðamaður eða hvað og ég játti því, landamæravörðurinn ræddi svo við einhverja tvo aðra en úr varð að hún hleypti mér inn í landið, welcome! Þá var það vandamál úr sögunni og ég dreif mig beint á hótelið, sem hafði nú sent bílstjóra eftir mér. Ég hélt ég yrði á fínu hóteli í miðbænum og var stóránægður með hversu ódýrt það væri miðað við það allt. En þegar ég kom á hótelið reyndist þetta nú ekkert agalega fínt, bara svona sirka 5 herbergi á einni hæð í blokk. Sá sem tók á móti mér var samt hin almennilegasti og vildi allt fyrir mig gera og herbergið með öllum helstu nauðsynjum þannig að ég hef ekki undan nokkru að kvarta. Ég fékk líka að tékka inn klukkan 10 um morgun sem var algjör snilld. Staðsetningin er hins vegar alveg frábær, stutt í allar áttir, aðalgatan í innan við 5 mín fjarlægð.
Ýmsar styttur víðs vegar um Bakú
Ég er búinn að vera svakalega duglegur að labba um alla borgina, fram og til baka og bara dást að því sem hefur orðið á vegi mínum. Byrjaði á að skoða gamla bæinn, skoðaði þar kastala og fleiri gamlar byggingar. Turnarnir þrír (Flame Towers) sem eru hérna eru stórkostlegir, sérstaklega í myrkri þegar ljósunum er varpað á þá. Teppasafnið er í geggjaðri byggingu sem lítur út eins og upprúllað teppi. Verslunarmiðstöðin ein er eins og óperuhúsið í Sydney í laginu. Minningarreitirnir um fallna hermenn er ótrúlegur staður. Fleiri og fleiri staðir sem ég man ekki lengur.
Teppasafnið
Gamli bærinn í Bakú
Minningareitur um fallna hermenn
Ég skellti mér í dagsferð um nærumhverfi Bakú sem hótelið hafði planað fyrir mig. Þetta átti að vera ferð með einakbílstjóra sem yrði bæði bílstjóri og leiðsögumaður, en þegar það kom í ljós að hann talaði bara rússnesku og tyrknesku sem eru tungumál sem ég er ekki sleipur í þá var notað táknmál og Goggle Translate og hlustum á háværa Azeratónlist á milli. Þetta reyndist bara hinn fínasti túr þar sem ég gerði nú allt á eigin vegum en hann keyrði mig hingað og þangað. Við skoðuðum merkilega staði sem eru bæði þekktir í sögulegu samhengi sem og jarðfræðilegu. Byrjuðum á UNESCO stað, Gobustan, þar sem voru klettar sem fólk bjó áður í og þar var mikið um grafskrift. Eins voru þar svokölluð leðjueldfjöll, en það eru litlir hólar sem gusast upp leðja, ótrúlega gaman að sjá þetta en skórnir mínir voru því ekki alveg sammála. Hér í landi eru yfir 300 svona eldfjöll af um 700 í öllum heiminum. Næst fórum við og skoðuðum svæði sem nefnist Atashgah, en þar er talið að byggð hafi hafist í upphafi enda mikið um olíu og gas á því svæði. Að lokum fórum við á magnaðan stað, Yanardag, en þarna er mikið gas sem streymir beint út úr jörðinni og logar eldur þarna þar sem gasið streymir út. Þessi eldur logað í fjölda ára en hann var uppgötvaður fyrst í kringum 1950. Þarna var mikill hiti og gaslykt og þetta var einhvern veginn alveg magnað. Azerar hafa gjarnan nefnt þennan stað sem heilagan og ég get vel skilið af hverju, það var einhver orka þarna. Á meðan við keyrðum um sveitir Azerbaijan sá ég hversu hrátt landslagið er, ansi líkt Íslandi á köflum, en síf þessir miklu olíuakrar um allt og svona olíupumpur að störfum mjög víða, og í raun talsverð sjónmengun af þessu svona að mínu mati. Litlir og sætir bæir hér og þar, ekki áberandi mikil fátækt sem ég bjóst frekar við, það sem kannski kom mest á óvart voru allar Lödurnar sem eru ennþá úti á vegum, og mikið notaðar sem leigubílar :)
Gobustan
Atashgah
Yanardag
Já, ég held ég gæti skrifað fullt í viðbót um landið en ætla ekki að þreyta ykkur of mikið, set frekar inn slatta af myndum svo hver getur dæmt fyrir sig. En seint annað kvöld er svo komið að næsta áfangastað, Kazakstan, en þar mun taka á móti mér snjór og sirka 10 stiga frost, það verður stuð. Þið heyrið eitthvað frá mér eftir helgina, en ég verð rúma viku í Kazakstan skipt á milli tveggja borga, annars vegar Aktau við Kaspíahafið og hins vegar Almaty, stærstu borgar landsins. Ég er ekki alveg búinn að ákveða hvort ég skreppi dagsferð yfir í höfuðborgina, Astana, en þar er víst í kringum 25 stiga frost, en vel þessi virði að fara þangað. Sjáum til, ef ég finn mér hlýja peysu :)
Bakú

Eldarnir eru svo geggjaðir
Svo geggjað að fylgjast með þér ❤️
Vá, vá vá, ja hérna drengur, þetta er alveg stórkostlegt að lesa, ótrúlegt eginlega.😮
Meiri afskiptasemin á þessum flugvöllum, o sei sei. Æðislegar myndir -en fer með mig að sjá allar þessar styttur sem ég gat ekki pósað með!!
Magnað hvað þú ert búinn að sjá mikið og ferðalagið rétt að byrja! Svo flottar myndir hjá þér. Passaðu nú að klæða þig vel í kuldanum ;)
Ævintýri 🎎