top of page

Land númer 4, Kasakstan

  • gardarorn4
  • Dec 9, 2022
  • 5 min read

Það kom að því að ég myndi komast til Kasakstan, og það í desember, á kaldasta tíma. Ég flaug hingað frá Bakú og rétt yfir Kaspíahafið í 45 mínútur og lenti í 13 stiga frosti og kulda í borg sem heitir Aktau. Engin vandamál á landamærum í þetta skiptið, bara boðinn velkominn inn í landið og fékk minn stimpil í mitt vegabréf. Var búinn að undirbúa það að ég yrði sóttur á flugvöllinn og það gekk allt eftir.


Daginn eftir fór ég svo af stað og ætlaði að skoða Aktau, spurði í móttökunni hvað væri skemmtilegt að skoða hér og hún varð hálf kjánaleg greyið stúlkan og sagði "sko það er ekki mikið hérna, þú getur farið á ströndina eða í verslunarmiðstöðina, annars er fátt annað." Jæja, ok, ég rölti á ströndina sem var reyndar mjög áhugavert að upplifa, allt í frosti en ótrúlega fallegur dagur, glampandi sól. Rölti þarna um en auðvitað var ekkert um að vera og allir veitingastaðirnir lokaðir meira og minna. Skellti mér að þessu loknu í þessa verslunarmiðstöð sem var nú bara svona ágætis afþreying. Rölti svo um borgina, og vissulega hafði hún rétt fyrir sér stúlkan, ekki var mikið að sjá, fyrst og fremst sovéskar blokkir, en það var þó ein og ein stytta á stangli og svo minningareitur um fallna hermenn, sem virðist vera meira og minna alls staðar þar sem ég kem. Ég stoppaði í þessari borg í þrjár nætur, en í raun hefði ein nótt verið alveg nóg.

Frá Aktau

Á miðvikudeginum flaug ég síðan til Almaty en sú borg er sú stærsta í Kasakstan og þar sem mest er við að vera. Kasakstan er gríðarlega stórt land, níunda stærst í heimi þannig að vegalengdir eru mjög langar hér og var þetta nærri þriggja tíma innanlandsflug. Það var alveg ótrúlega flott að sjá þegar við vorum að lenda og vorum ennþá skýjum ofar hvernig fjallatindarnir stóðu upp úr skýjunum, alveg geggjað, en svo þegar við komum niður úr skýjum blasti við frekar sovésk borg, snjór og mengun.

Aftur var ég sóttur á flugvöllinn og keyrður á hótel, sem er mjög vel staðsett í miðborginni og stutt í allt saman, þess vega var ég smá hissa þegar ég spurði í móttökunni hvort þetta væri ekki City center og hvert ég ætti að fara að skoða. "Do you want to go where there are many things?" Yes! Ok, sestu niður og bíddu eftir leigubílnum!! Ég fer um borð í leigubílinn, ennþá að velta þessu fyrir mér af hverju ég þarf að taka leigubíl, en kannski er þetta eitthvað lengra en ég hélt, og það er sjö stiga frost og snjór yfir öllu. Síðan keyrum við og keyrum og keyrum endalaust lengi og mér ekki alveg farið að standa á sama en gat ekkert spurt því ekki talaði leigubílstjórinn neina ensku. Síðan eftir sirka 35 mínútur stoppum við, fyrir framan risa stóra verslunarmiðstöð!! Ok, allt í lagi, ég fer bara og skoða þessa verslunarmiðstöð, sem var reyndar alveg geggjuð, stór og flott og orðin mjög jólaleg. En var samt að velta þessu ennþá fyrir mér hvernig mér hafði tekist að lenda hér í staðinn fyrir að rölta um í miðbænum. Komst svo að þeirri niðurstöðu að þegar ég spurði um City Center hefur stúlkan ákveðið að ég væri að spyrja um Shopping Center og ég ratað hingað.

Þá var að komast til baka, og ekki var nú hlaupið að því, samkvæmt Google Maps var hótel tvær klukkustundir í burtu gangandi, leigubílar eru ekki merktir hér í borg þannig að ekki gat ég tekið leigubíl, Uber appið mitt vildi ekki virka þannig að ég gat ekki pantað Uber. Þá var bara eftir einn möguleiki, strætó! Ég skellti mér á strætóstoppið og var búinn að finna út úr því að ég ætti að taka strætó nr 1. Loksins kom strætó og ég snara mér inn, en gat auðvitað ekki borgað fargjaldið því ég átti að vera með eitthvað app eða sérstakt strætókort sem ég var ekki með svoleiðis að ég smyglaði mér bara inn og settist niður, dauðhræddur um að ég yrði nú örugglega tekinn höndum! Strætóferðin reyndist nú samt bara alveg ágæt, tæplega klukkutími í mikilli umferð og pakkfullum strætó en til baka á hótelið komst ég, mjög sáttur við þetta allt saman.

Almaty

Daginn eftir fór ég síðan á röltið um miðborgina. Almaty er full af alls konar skemmtilegum almenningsgörðum sem gaman er að rölta um og meðfram götunum eru mikil tré sem mér skilst að séu ótrúlega falleg þegar þau eru í blóma, núna er auðvitað hávetur og frost og engin lauf á trjánum þannig að það er allt öðruvísi upplifun. Það er kannski ekki mikið af flottum byggingum nema ein og ein orthodox kirkja og opinberar byggingar. Mikið af alls kyns minnismerkjum í þessum görðum sem gaman er að skoða. Það var mjög notarlegt að rölta um borgina þótt ekki væri margt að sjá og væri ég mjög mikið til í að koma aftur hingað að vori til að upplifa borgina í sól og góðu veðri, og þá eins að fara upp í fjöllin sem eru hér í kring en er ekki spennandi að gera núna að vetri, nema þá til að fara á skíði, sem ég er ekki mikið fyrir. Á göngu minni rampaði ég svo inn í dýragarð og ég er ekki mjög mikið fyrir slíka garða en ákvað að borga mig inn og var þetta bara hin mesta skemmtun. Ég sá hin ýmsu dýr og tók myndir í gríð og erg eins og þið sjáið hér að neðan. Þarna var ég í einhverja tvo klukkutíma og hafði gaman af. Eins var svo magnað að það var búið að smíða hús á hvolfi og innrétta það allt á hvolfi, alveg ótrúlega skemmtilegt, læt líka nokkrar myndir fylgja af því.

Dýragarðurinn

Allt á hvolfi


Matarmenning hérna í Mið-Asíu er ótrúlega skemmtileg, svona blanda af rússnesku, evrópsku og asísku, allt blandað saman. Þeir eru vitlausir í alls konar súpur, svona Borch eins og er svo vinsælt í Rússlandi og eins eru þeir vitlausir í salöt og matseðlarnir yfirleitt margar blaðsíður af salötum, hverju öðru gómsætara. Þeir nota rosalega mikil dill, sem er svona þeirra aðal krydd, og ég mundi eftir því að það var einmitt mikið notað í mat í Úsbekistan og Túrkmenistan þegar ég var þar fyrir nokkrum árum, ótrúlega gott bragð. Þeir borða mikið kjöt og aðal kjötið þeirra hér í landi er hrossakjöt í ýmsum útfærslum. Verðlagið er líka til fyrirmyndar, mjög ódýrt að borða og drekka. Í gær fékk ég mér til dæmis þriggja rétta máltíð og keypti vínflösku með, og verðið, rúmlega 5000 kr, og það á flottum veitingastað!

Frá einum veitingastaðnum sem ég borðaði á, meira eins og safn, ótrúlega flott


Fólkið hér er allt saman mjög almennilegt og vill allt reyna að tala við mig ensku, en þau kunna mjög litla ensku hér en reyna þó. Hótelstaffið í móttöku talar allt ágætis ensku en ekki á veitingastöðum eða í búðum. Ég er auðvitað kominn lengst inn í Asíu og til að mynda eru landamærin að Kína stutt héðan í burtu, sirka 300 km austur. Því er útlitið á fólkinu mjög asískt, en svona skemmtileg blanda af rússnesku útliti og asísku útliti, mjög andlitsfrítt fólk.

Ég hafði planað að vera hér í 7 daga og jafnvel að fara í einhverjar dagsferðir frá Almaty en þær eru bæði fáar í boði og mjög dýrar þar sem maður er yfirleitt bara einn um ferðina og þarf að borga þá meira þannig að eftir smá umhugsun ákvað ég að breyta flugmiðanum mínum og fara fyrr héðan en ég ætlaði áður. Á næsta áfangastað er mun meira um að vera, meiri túrismi og staður sem mig hefur dreymt um að fara og heimsækja í mörg mörg ár og er alveg til í að vera þar lengur en áður var planað. Ég mun þvi fara af stað næstu nótt til Suður-Kóreu, nánar tiltekið til Seoul. Get eiginlega bara ekki beðið eftir að komast þangað. Þangað til næst, hafið það sem best og takk fyrir lesturinn.

Hótelið mitt í Almaty


Recent Posts

See All

1 Comment


grasagudda
grasagudda
Dec 10, 2022

Mikið á sig lagt til að fara í verslunarmiðstöð ;) Dill, dill, dill í salöt -var æði í Úsbe- og Túrki ferðinni okkar. En ég hef aldrei fengið karlaköku á veitingastað eins og þú gerðir í þessu landi (man's cake), hahaha

Like
bottom of page