Land númer níu, Thaíland, fyrri hluti
- gardarorn4
- Jan 19, 2023
- 4 min read
Þá er það hið magnaða land, Thaíland, land andstæðna!


Bangkok, stór, alveg risa stór, brjálað heitt og rakt, stórkostlega falleg en víða mjög ljót, hávaðasöm, nema þegar maður er fjarri umferð á bátum úti á síkjum, en fyrst og síðast mikil stórborg, með öllum þeim kostum og göllum sem slíkar borgir hafa. Ég kom til Bangkok frá Kambódíu síðdegis á fimmtudegi, stutt og gott flug yfir á einn stærsta flugvöll Asíu. Það gekk nú samt sem áður allt ótrúlega hratt og vel fyrir sig, en ég hef heyrt að það geti tekið upp undir nokkra klukkutíma að bíða stundum þegar mikið er um að vera, enda Bangkok sögð sú borg sem fær hvað flesta túrista í heimi, eða um 30 milljónir, fyrir Covid, vissulega eitthvað minna núna. Splæsti á mig leigubíl á hótelið. Gisti á svakalega flottu hóteli, Hotel Indigo sem er staðsett í því sem þeir kalla fjármálahverfi Bangkok með öll háhýsin allt í kring. Eins eru mjög mörg sendiráð þarna í hverfinu sem og stórar verslunarmiðstöðvar með svona dýrari búðum en mitt veski ræður vel við! Hótelið var svo stórkostlegt að ég endaði á að eyða allt of miklum tíma þar, bæði voru þrír veitingastaðir sem voru hver öðrum betri og tveir barir, einn geðsjúkur Sky Bar með útsýni yfir alla borgina, og annar sem sérhæfði sig í Craft bjórum víðsvegar að úr heiminum. Sundlaugin á þakinu var nú svo til að toppa þetta allt saman! Ég náði því vel að slappa af þessa daga og hlaða batteríin, sem voru að verða hálf tóm eftir langt og strangt ferðalag síðustu vikur.
Ég skoðaði nú samt alveg borgina, þótt ég hefði mátt vera mikið duglegri við að skoða hana. Ég rölti um í Limpin Park sem var stutt frá hótelinu sem var mjög skemmtilegur almenningsgarður, fór inn í Silom, sem er svona djammhverfi Bangkok og upplifði djammlífið þar. Ég vissi fyrirfram að djammið væri ansi kynlífsmiðað og eiturlyfjamiðað og það var alveg svoleiðis, endalaust verið að bjóða manni kynlíf til sölu eða reyna að trekkja mann hingað og þangað á staði sem ég hafði ekki áhuga á að fara á. Ég var duglegur að segja nei við þessu og það virkaði nú yfirleitt, sumir hálf hlupu á eftir manni en almennt dugði nei og að labba í burtu. Mér fannst samt mjög skemmtilegt að upplifa djammið, og að sjálfsögðu tókst mér að lenda á dragshow! Mjög fyndið hvernig ég lendi þar alltaf, en ég hef samt haft mjög gaman af og þetta var sérstaklega flott show.
Ég skellti mér í langa siglingu um ánna sem liggur um borgina og fórum við svo inn í litlu síkin sem eru svona eins og bakvið húsin. Ég var á svona löngum bát og var bara eini farþeginn um borð, þannig að ég fékk einkatúr um borgina. Þetta fannst mér alveg einstaklega skemmtilegt, og svo gaman að sjá öll þessi hof, hallir, hús og gróður frá bát. Sumt var líka alveg svakalega hrörlegt og eiginlega skildi ég oft ekki hvernig húsin náðu að standa, og greinilegt var að það var búið í þeim. Það var líka magnað að sjá risa stórar eðlur sem liggja þarna og sleikja sólina við síkin. Þær eru stórar en mér skilst að þær séu ekki hættulegar.
Loksins hitti ég svo fólk sem ég þekki, en gamall vinnufélagi frá Rekstrarvörum, Kristbjörn, er hérna úti en konan hans er frá Thaílandi og þau koma yfirleitt hingað um háveturinn og eru í nokkrar vikur. Þau hafa auðvitað ekkert getað komið síðan fyrir Covid. Við Krissi göntuðumst oft með það á meðan ég var að vinna hjá RV að við yrðum einn daginn að hittast í Bangkok, og loksins gerðist það. Ég fór með þeim út að borða á alveg frábæran steikarstað, held að þetta sé besta steikin sem ég hef fengið í Asíu. Alveg frábært að sitja og spjalla við þau í nokkra klukkutíma, enda hef ég ekki hitt neina íslendinga fyrr en núna.

Ég hefði viljað gera meira í Bangkok, heimsækja bæði söfn og öll Búddahofin en ég var einhvern veginn útúr keyrður og átti mjög erfitt með hitann líka þannig að það er ljóst að ég þarf að fara aftur til Bangkok og skoða betur. Þá myndi ég vilja vera á hóteli sem er nær þessum túristastöðum, en ég þurfti alltaf að nota lestar og strætó, eins og svo oft í stórborgum, en í hitanum var ég bara ekki að meika það.

En ferðalagið heldur áfram og í dag flaug ég frá Bangkok og yfir til Norður-Thaílands, til borgar sem heitir Chiang Rai og er ekkert langt frá landamærum Myanmar og Laos. Þessi borg og þetta svæði er einna helst þekktast fyrir ólíka ættbálka sem flust hafa yfir til landsins, sem og stórkostleg hof hér allt í kring, sem ég ætla að heimsækja. Ég gerðist svo djarfur að taka mér bílaleigubíl og ætla að keyra hér um svæðið og skoða vel næstu daga og það sem ég sé á því ferðalagi verður efni í annað blogg frá þessu landi!
Ég er bara búinn að vera hér í borg í fjórar klukkustundir en er búinn að labba um allt, skella mér á safn um ættbálka og skoða fallega blómagarðinn þeirra. Sett inn nokkrar myndir hér að neðan en svo kemur ítarleg umfjöllun um Norðrið eftir helgina :)
Vona að allir hafi það sem best yfir helgina, sé að það er að hlýna hjá ykkur á klakanum sem betur fer, ég verð bara áfram í þessum plúsgráðum, 30 stig sirkabát!

Alveg ótrúlegir hlutir sem þú ert að sjá og upplifa. Takk fyrir að deila þeim með okkur!💚 Ég öfunda þig ekki af hitanum en öllu hinu 😘
Skemmtilegt blogg frændi minn ❤️
Stórkostlegt að fá að fylgja þér, Vá,Vá,Vá.
Svo gaman að fylgjast með þér 😍