top of page

Land númer sjö, Víetnam

  • gardarorn4
  • Jan 1, 2023
  • 6 min read

Updated: May 5, 2023

Ég verð ekki oft kjaftstopp, en að koma til Sósíalíska ríkisins Víetnam gerði mig kjaftstopp. Nánar tiltekið þegar ég kom til Hanoi, sem er fyrir norðan og er höfuðborg landsins. Ég hef aldrei, aldrei upplifað jafn mikið af ólíkum tilfinningum, frá góðum til slæmra og allt þar á milli....... Hanoi er jafn stórkostleg og hún er hræðileg, jafn sjarmerandi og hún er óhugnanleg, jafn falleg og hún er ljót, en eitt er hún, einstök og yfirþyrmandi! Ég veit varla hvernig ég á að lýsa þessu betur en svo að ég hef aldrei komið á annan eins stað á öllum mínum ferðalögum um heiminn, og þau hafa verið þónokkur 🙂

Ég gisti alveg í hjarta gamla bæjarins í Hanoi á mjög skemmtilegu hóteli þar sem fólkið vildi allt fyrir mig gera, og stundum kannski aðeins of mikið þegar fúli Íslendingurinn kom upp í mér..... En ég flug til Hanoi frá Taipei á Aðfangadagsmorgni, fyrsta skipti sem ég ferðast í flugvél þann dag. Átti hið besta flug yfir og lenti á flugvellinum og allt gekk þar eins og í sögu, nema..... þegar ég kem út þá er engin bílstjóri þar sem hann átti að vera. Ég leita og leita en ekkert finnst og enda á að hafa samband við hótelið. Úr þessu leysist og bílstjórinn mætir á svæðið! Fínt, let's go! Þeir sem mig þekkja vita að ég er fremur bílhræddur! Það náði nýjum hæðum! Þessi bílstjóri keyrði líkt og andskotinn myndi hitta okkur ef við kæmumst ekki framúr öllum, bæði bílum, mótorhjólum, gangandi vegfarendum og bara öllu sem hreyfðist! Og til þess að það gengi upp fórum við framúr, keyrðum mest á móti umferð, allir voru blikkaðir, flautan var þaninn líkt enginn væri morgundagurinn og ég kastaðist til og frá í aftursætinu! Ég hugsa að púlsinn minn hafi ekki farið undir 300 slög þessar 40 mínútur sem bílferðin tók! En fyrir Guðs og Búdda lukku komumst við á áfangastað, lifandi! Já, umferðin í þessu landi er rugl! Og öll mótorhjólin, ég hef aldrei séð annað eins! Sjáið umferðarmyndirnar!


Jæja, Aðfangadagur Jóla hefur aðra merkingu í Víetnam en hjá okkur Íslendingum, þetta er bara eitt stærsta partý ársins, enda fæstir kristnir hér, og reyndar eru flestir án trúar, þótt Búdda sé svona það sem er leiðandi í landinu. Ég hafði bókað borð á veitingastað á fínu hóteli í hjarta gamla bæjarins með geggjuðu útsýni yfir stöðuvatnið í borginni. Fékk svona bara bærilega góðan mat þar en mikla skemmtun, fallegt fiðluspil undir matnum og síðan svakalegt dragshow upp á svölum með útsýni yfir rokktónleikana sem áttu sér stað á þremur sviðum víðs vegar um Hanoi! Þvílíkt stuð! Og þegar öllu þessu var lokið var eitt mesta djamm sem sögur fara af í götunni sem hótelið mitt er á, sem ég auðvitað tók þátt í.... ég sem drekk ekki á jólunum...en í ár var undantekning! 🙂

Það er margt að sjá og skoða í Hanoi og var ég duglegur að rölta um borgina og skoða allt sem hún hefur upp á að bjóða, og kannski helst að reyna bara að ná áttum í öllum þessum hávaða sem einkennir hana. Eitt sem mig langaði mjög að sjá er gata sem er kölluð Train Street, en þarna ganga lestarteinar í gegnum götuna fram hjá verslunum og kaffihúsum svo allir verða að passa sig að verða ekki fyrir lestunum, og við erum að tala um venjulegar lestar, ekki neina smásmíði. Ég var samt búinn að lesa að gatan væri lokuð vegna mikils átroðnings ferðamanna en ég ákvað nú samt að fara þangað og athuga sjálfur. Og viti menn, þarna var allt í fullu fjöri, kaffihúsin opin og fullt af fólki. Sat þarna á kaffihúsi og spjallaði við tyrknesk ættaða Þjóðverja sem voru líka ferðamenn hér, og vildi svo skemmtilega til að gistu á sama hóteli og ég, þvílík tilviljun. Við fengum að sjá þrjár lestar fara í gegnum götuna, þvílíka ruglið! Okkur var reyndar aðeins brugðið í eitt skiptið því konan var að færa sig til en flækir sig í borðinu og dettur beint út á teinana sekúndum áður en lestin var að koma, en á undraverðan hátt tókst okkur að toga hana upp áður en lestin kom. Bjórflöskurnar okkar brotnuðu en ekki varð mannskaði, mátti litlu muna.



Maturinn í Víetnam er mjög góður. Hann hefur ekki alltaf litið mjög vel út, en nær undantekningalaust er hann mjög bragðgóður. Á meðan ég var í Hanoi fór ég í svona matartúr um borgina þar sem ég fékk að smakka á ýmsum Víetnömskum mat, og var það hvert öðru betra, og kaffið sem ég fékk kom skemmtilega á óvart, eggjakaffi sem er hrært egg og svart kaffi, furðu gott! Eins hef ég fengið alls konar gott að borða á veitingastöðum víðs vegar um landið. Ég hef nú samt ekki alltaf verið alveg rólegur varðandi hreinlæti, hef á tilfinningunni, allavega í Hanoi að hreinlæti sé ekki upp á 10 hjá þeim, en hef þó að mestu sloppið við magapest, 7,9,13!! Í túrnum fékk ég hrós frá leiðsögumanninum fyrir fádæma kunnáttu í notkun á prjónum.... sem mér fannst fyndið, því ég er eins og asni með þessa prjóna endalaust, en er samt hissa hversu vel það gengur orðið, en gleðst mikið þegar ég sé bæði hníf og gaffal :)

Ég fór í eina dagsferð á svæði sem heitir Halong Bay og samanstendur á tæplega 2000 eyjum og skerjum úti fyrir strönd Norður-Víetnam. Auðvitað er þetta á UNESCO listanum og þeir segja að þetta sé eitt af undrum veraldar. En vissulega var þetta alveg stórkostlegt svæði. Tókum rútu frá Hanoi í rúma tvo klukkutíma og fórum svo um borð í lúxusbát og sigldum þarna um í einhverjar sex klukkustundir, fengum að borða og drekka og þeir sem vildu gátu skellt sér á kajak og að synda, en ég ákvað að slaka bara á í sólinni og njóta lífsins. Var alveg frábært, fyrir utan að það var þarna 12 manna hópur frá Indlandi sem töldu sig eiga bæði rútuna og bátinn, töluðu hátt og mikið, krakkarnir hlupu stanslaust um og voru með læti og því miður setti þetta aðeins svip sinn á upplifunina, og ekki bara hjá mér, flestir voru orðnir frekar pirraðir á þessum hóp, en þannig er þetta víst, maður veit aldrei hvernig fólk er með manni í svona hópaferðum.

Mig langaði að sjá eitthvað aðeins meira af Víetnam og því ákvað ég að fljúga inn í Mið-Víetnam, flaug á flugvöll sem heitir Da Nang en tók þar leigubíl í ótrúlega fallegan bæ sem heitir Hoi An og er kölluð ljóskeraborgin (The Lantern City), og ekki af ástæðalausu. Flugið hingað yfir var hryllingur, það var svo vont veður yfir Mið-Víetnam að ókyrðin tók nýjum hæðum þannig að áhöfnin náði varla að sinna sínum störfum um borð. En á undraverðan hátt tókst okkur að lenda loksins! Þá tók við 45 mín akstur um Víetnamskri umferð, sem er greinilega alls staðar eins, þeir keyra eins og fáráðlingar!! En til Hoi An kom ég og gisti á frábærum stað, sem er einskonar heimagisting alveg í miðbænum. Borgin er alveg ótrúlega falleg og skemmtileg og ljóskerin eru svo sannarlega aðalsmerki hennar. Mjög skemmtilegt að labba meðfram ánni og eins er ég búinn að fara í siglingu um ánna sem var frábært. Hún er auðvitað fallegust á kvöldin þegar ljósin fá að njóta sín, en á daginn er mjög gaman að skoða öll gömlu húsin, en hér eymir af því þegar Víetnam var undir stjórn Japana og er þeirri sögu lyft talsvert upp hér í borginni, til dæmis tala þeir um japönsku brúna og japönsku húsin. Ég er í tvígang búinn að fara í fótanudd sem er algjört æði, og kostar bara klink. Eina sem er leiðinlegt er að mér tókst að ná mér í bölvaða flensu og hef því lítið getað gert annað en legið fyrir síðustu tvo dagana, það er gamlársdag og nýársdag, kjörið að enda 2022 með flensu og byrja 2023 á sama hátt. En fall er fararheill og vonandi verður árið betra! Ég fór nú samt út að borða á Gamlárskvöld og taldi niður í nýja árið en var kominn í ból hálf eitt :)

Læt þetta gott heita af sögum frá Víetnam, óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir það liðna, og takk fyrir að fylgjast með ævintýrum mínum, þykir óskaplega vænt um það. Ég er duglegur að setja inn á Story bæði á Facebook og Instagram og Snapchat á milli blogga þannig að endilega fylgist með mér þar líka. Næsta land, Kambódía, fer þangað á þriðjudaginn, það verður gaman!


Comments


bottom of page