Land númer tíu, Malasía
- gardarorn4
- Jan 29, 2023
- 4 min read
Magnað, ég er búinn að skrifa um 10 lönd þá og þegar og það er ennþá bara janúar, hvað skyldu þetta verða mörg lönd á endanum? :) Kemur í ljós!
En þetta blogg fjallar um Kuala Lumpur í Malasíu, þá stórkostlega skemmtilegu borg. Þangað hefur mig lengi langað að koma en aldrei látið verða af því þannig að ég var mjög spenntur, og borgin olli mér engum vonbrigðum!
Kúala Lumpur er vissulega mikil stórborg, með miklum háhýsum, en einnig talsvert um lágreist hús líka, eða hverfi, inn á milli. Eins eru stórir og fallegir almenningsgarðar þar allt í kring. Það er mjög mikið af verslunarmiðstöðvum, búðir alls staðar fannst mér. Eins verður maður klárlega ekki svangur eða þyrstur þarna í borg því enginn skortur er á veitingastöðum og börum. Malasía er að miklu leiti múslimaríki og það var talsvert áberandi svona í til dæmis klæðaburði kvenna, flestar með slæðu um höfuð en ekki í fullum búrkuklæðum. Karlmenn voru mun frjálslega klæddir. Margir þeirra með svona blandað asískt/miðausturlandaútlit. Eins var áberandi mikið af indversk ættuðu fólki, enda stórt indlandshverfi í borginni. Hinn ríkjandi þjóðflokkurinn eru kínverjar og var borgin stútfull af skreytingum í tilefni nýja tunglársins en kanínan hefur tekið við þetta árið. Ég kom þarna á mánudeginum og nýja árið hófst þarna þann sólahring, sunnudag/mánudag og var eins og það væri bara slökkt í borginni þegar ég kom, meira og minna allt lokað og almennur frídagur þann dag.
Ég var í geggjaðri hótelíbúð þar sem fór heldur betur vel um mig, og frábærlega staðsett, stutt frá öllu því helsta, en útsýnið út um gluggann minn upp á 29.hæð var sturlað. Eitt þekktasta kennileiti þeirra í Kuala Lumpur eru tvíburaturnarnir Petronas, og vá vá vá, þeir eru stórkostlegir. Ég var með útsýni beint yfir þá. Geggjaðir á daginn, sturlaðir á kvöldin!! Myndin sýnir útsýnið úr íbúðinni minni.

Ég var sæmilega heppinn með veður, rigndi slatta eins og gerir yfirleitt hér og því bæði heitt og rakt, en ég lét það ekki stoppa mig og fór og skoðaði borgina. Byrjaði á því að skreppa í Hop On/Hop off túr sem var mjög skemmtilegt. Þurfti reyndar að mestu að vera innandyra vegna rigningar en tók nú samt nokkrar myndir af borginni.
Það er mjög stórt Kínahverfi í borginni og mælt með að maður fari og skoði það vel sem var mjög skemmtilegt, stór útimarkaður, sum húsin reyndar frekar hrörleg, en svo lenti ég í svaka fagnaðarlátum út af nýja árinu, dansandi drekar, trommusláttur og flugeldar sprengdir, var mjög skemmtilegt. Eins og ég sagði líka áðan var borgin öll mikið skreytt.
Síðan tók ég eitt síðdegið í ferð í stóran grasagarð þar sem þeir eru með stórt fuglasafn sem ég hafði mjög gaman að rölta um og skoða þessa fallegu fugla sem voru þar um allt. MIssti mig auðvitað aðeins á myndavélinni.
Ég verð svo auðvitað að koma með sér færslu um Petronas turnana. Þessir turnar voru svo magnaðir, ég var alltaf að horfa á þá og dást af þeim, og smella af myndum. Auðvitað varð ég að reyna að komast upp í þá líka og ég fékk loks miða eftir tveggja daga bið. Var vel þess virði að fá að fara upp en þessu er vel stjórnað, fólki skipt í hópa, lögreglumaður með og fólk fær bara X langan tíma uppi. Fyrst er farið á brúnna sem tengir turnana saman, en síðan er farið áfram upp á topp. Útsýnið auðvitað magnað. Fyrir framan turnana er svo stór almenningsgarður þar sem fólk er mjög mikið að gera, hlaupa, hjóla, slappa af, krakkarnir að leika sér, stór almenningssundlaug fyrir krakkana og svo það sem ég elska svo mikið, svona gosbrunnar sem á kvöldin skipta litum í takt við tónlist. Þetta svæði var auðvitað bara algjörlega sjúkt.
Ég var auðvitað ekki bara í endalausum skoðunarferðum, heldur var ég líka bara að njóta. Notaði sundlaugina talsvert mikið á hótelinu sem var bara æðislegt. Kíkti aðeins út á lífið, borðaði góðan mat og naut lífsins eins og hægt er. Rölti um göturnar, skoðaði falleg listaverk og styttur og fleira og fleira. Og sá rottur!!!
En allt gott tekur enda og í morgun yfirgaf ég Kuala Lumpur, en á vonandi eftir að heimsækja þessa borg aftur, og þá myndi ég líka vilja fara víðar um landið, því þetta er spennandi land, mjög kurteist fólk, eina kannski aðeins dýrt. Plönin mín eru svo alltaf að breytast. Í dag var stefnan á að fljúga til Brúnei og þaðan svo til Indónesíu áður en ég fer til Ástralíu. Hins vegar gerði ég talsverðar breytingar í vikunni, fyrst og fremst vegna veðurs, en líka af því mér þykir gaman að breyta. Þannig að núna sit ég á hótelherberginu mínu í Singapore þar sem ég ætla að vera næstu tvo dagana. Alltaf gaman að koma til Singapore, komið hingað einu sinni áður og kolféll fyrir borginni þá þannig að morgundagurinn verður notaður í skoðunarferð um borgina, fáið pottþétt blogg um það! En á þriðjudaginn ætla ég svo að fljúga á eyju lengst út í Kyrrahafi sem heitir New Caledonia og er undir yfirráðum Frakka. Miðað við myndirnar sem ég hef skoðað virðist þetta hin mesta paradísareyja og ég ætla því að fara þangað í sex nætur, hvíla lúin bein á Resort hóteli við ströndina og hafa það notarlegt! Ef ég þekki sjálfan mig samt rétt mun ég verða farinn á eitthvað flakk um eyjuna! Þaðan fer ég síðan til Ástraliu og næ að heimsækja aðeins fleiri borgir en ég hafði planað, áður en ferðinni er heitir til Nýja Sjálands. En meira um það síðar.
Njótið dagsins og takk fyrir lesturinn og allar góðu kveðjurnar :)

Gleðilegt nýtt kanínuár ;) Alltaf gaman að fá að fylgjast með þér. Vona að rotturnar hafi ekki farið alveg með þig (enda enginn smá fjöldi!)