Land númer tólf, New Caledonia
- gardarorn4
- Feb 6, 2023
- 2 min read
Þetta var heldur betur góð skyndiákvörðun að skella sér til New Caledonia í nokkra daga. Þvílík paradísareyja sem þetta var, þótt ég hafi gert mjög lítið annað en að halda mig við hótelgarðinn, ströndina, smá djamm og borða frábærlega góðan mat alls staðar! Sól og sumar alla daga, um og yfir 30 gráður þar til síðasta kvöldið, þá kom smá rigning :)
Eyjan er ekki mjög stór og vegalengdir ekki langar, en það hefði verið sniðugt að leigja bílaleigubíl til að þvælast um eyjuna. Ég var samt búinn að ákveða að vera bara í rólegheitum og gerði það heldur betur. Eyjan er mjög græn og talsvert hæðótt þannig að margir koma þangað í gönguferðir á milli sólbaðsdaga. Ég hélt mig þó bara í höfuðborginni sem heitir Noumea. Ég gisti á hóteli aðeins út úr miðbænum, flottu Resort hóteli með þremur veitingastöðum, sundlaug, heilsulind með nuddmeðferðum og innisundlaug sem er full af vatnsnuddi og notarlegheitum. Ströndin var svo hinum megin við girðinguna með Kyrrahafið á sínum stað :) Nokkrar myndir af hótelinu.
Miðbærinn og borgin sjálf hafði upp á margt að bjóða. Nokkur söfn, flottir almenningsgarðar og talsvert af styttum hér og þar. Fólkið var mjög blandað, mikið evrópskt útlit, enda partur af Frakklandi, en um 30% af íbúum eru af frumbyggjaættum, sem eru svona Creole útlit, mjög dökkir á hörund. Skemmtileg blanda. Talsvert mikið af túristum og eins mikið af frökkum sem flytja þangað tímabundið til að vinna og/eða ferðast um.
Maturinn var algjörlega frábær alls staðar, en frekar dýrt að borða og drekka. Ég kíkti nokkrum sinnum út á lífið, en rétt við hótelið mitt voru nokkur diskótek og barir svona í húsum staðsettum út í sjónum, alveg geggjað flott og mikil stemning þar. Rétt við hótelið mitt var síðan spilavíti sem ég kíkti einu sinni í og kom út með smá gróða, fínt að vera heppinn stundum :)
Eitt skiptið kom ég heim frekar seint og var byrjað aðeins að birta að degi, og vá vá vá, litirnir á himninum voru sjúklegir, sjaldan séð svona geggjaða liti! Veit ekki hvort myndirnar skili því vel.

Þetta voru frábærir sex dagar á þessari eyju, en núna er ég kominn til Sydney í Ástralíu, ótrúlega ánægður með að vera kominn hingað. Kom hingað 2005 og fannst borgin sjúk þá, hlakka til að skoða hana núna. Verð samt bara hér fram á fimmtudag og held þá áfram að ferðast í Ástralíu, fer fyrst til Adelaide, síðan Perth og svo til Brisbane þannig að það er margt spennandi framundan. Þar til næstu skrif, hafið það sem best :)

Comentaris