top of page

Land númer átta, Kambódía

  • gardarorn4
  • Jan 12, 2023
  • 4 min read

Hvað skal segja um Kambódíu? Mögnuð saga, fallegar sveitir, vingjarnlegt fólk, góður matur og aðeins svona röff stemning í höfuðborginni.

Ég byrjaði á því að fljúga með einhverri relluflugvél frá Víetnam og yfir til Siem Reap, mjög furðuleg flugleið þegar ég skoðaði hana á Flightradar.

Siem Reap er sá staður þar sem flestir túristar koma vegna þess að í nágreni borgarinnar eru hinar þekktu rústir Angkor Wat, sem er bara eitt það stórkostlegasta sem ég hef séð, enda enn einn UNESCO staður sem ég skoða. Byrjaði samt á því að skoða borgina fyrsta daginn, ótrúlega skemmtilegt að rölta um borgina. Skellti mér á safn sem fjallaði um Angkor Wat svæðið og alla söguna í kringum það og trúarbrögð Kambódíubúa, en þeir eru mjög trúaðir á Búddatrú, og að einhverju leyti er ríkjandi Hinduismi hér líka. Þetta var ótrúlega flott og skemmtilegt safn sem ég auðvitað tók heilan haug af myndum af.

Sjálf borgin er líka frekar skemmtileg, margt að sjá og skoða, en vissulega er hún mjög túristavæn, og endalaust af svona Tuk Tuk, sem voru yfirleitt mótorhjól með farþegavögnum og kostuðu yfirleitt bara klink. Ég rölti um borgina og það var ennþá talsvert af jólaljósum víða sem var gaman að sjá. Eins voru Búddahof, flottar byggingar, almenningsgarðar og fleira og fleira. Djammið í Siem Reap fer að mestu fram í einni götu, enda nefnist sú gata einfaldlega Pub Street, ekkert verið að flækja hlutina og það var ótrúlega gaman að vera þar á kvöldin, mikið mannlíf, bjór og kokteilar :) Skellti mér á eitt Drag Show í borginni sem var stórskemmtilegt og mikil stemning.

Aðal ástæðan fyrir því samt að ég kom til Kambódíu var til að skoða Angor Wat hofið og rústirnar. Það kom mér svakalega á óvart þegar ég fór að lesa mér til um þetta um hversu stórt svæði var að ræða og margar mismunandi byggingar, ekki bara þessi eina sanna sem maður þekkir helst heldur fjöldinn allur af öðrum sem aðrir konungar reistu á þessum árum í kringum 1100-1200 þannig að úr varð í raun nokkurs konar þorp. Bílstjórinn minn, Tuk Tuk einkadriverinn sem hafði sótt mig á flugvöllinn vildi endilega fá að keyra mig um svæðið sem var algjör snilld. Hann var með kort af svæðinu og sýndi mér þá staði sem hann ráðlagði mér að fara á. Ég keypti bara eins dags passa en margir kaupa þriggja daga eða vikupassa og geta þá skoðað mikið meira af svæðinu, en mér þótti einn dagur alveg nóg. Hann fór með mig á þrjá mismunandi staði þar sem ég prílaði um í þessum mögnuðu rústum og víða var verið að segja ýmsar sögur sem maður gat hlustað á. Ég verð að segja að af þessum þremur stöðum sem ég skoðaði stóð að sjálfsögðu sjálft Angkor Wat upp úr, alveg magnað að sjá þetta, labba upp að því og fara innfyrir múrana. Hinir staðirnir voru samt alveg stórfenglegir líka og ég mæli með að allir fari þarna og skoði þetta svæði. Takið bara nóg vatn með ykkur því þarna er alltaf heitt og rakt! Það sem var líka æðislegt voru allir viltu aparnir sem hoppuðu og skoppuðu allt í kringum mig, einstaklega skemmtilegt enda apar æðisleg dýr.

Eftir þetta allt saman lá leið mín til Phnom Penh, höfuðborgar Kambódíu. Ég ákvað að vera grand á því og pantaði mér einkabílstjóra til að keyra mig á milli þessara tveggja borga, einhverja rúmlega 330 kílómetra leið. Hann mætti á hótelið og sótti mig á þessum fína Lexus og við lögðum af stað. Ekki get ég nú sagt að það hafi verið mjög mikið að sjá á leiðinni svona þannig, talsverð auðn en svo hús í hálfgerðri niðurníslu inn á milli og einstaka bæir. En alls staðar var götusölufólk, það vantar ekki. Ég tók nokkrar myndir á leiðinni, en við stoppuðum líka við mjög fallega brú þar sem ég skellti af nokkrum myndum. Þetta ferðalag tók rúmlega sex klukkutíma þar sem mikil umferð var á leiðinni sem og vegirnir ekki gerðir fyrir neinn hraðakstur í Kambódíu :)

Phnom Penh er skrýtin borg, nokkrar mjög fallegar byggingar, mikil Búddamenning, rosalega mikill hávaði, stendur við Mekong ánna sem rennur í gegnum borgina, umferðin skelfileg (samt ekkert eins og í Hanoi), fólkið mjög vingjarnlegt en á sama tíma er hún skítug og leiðinlega mikið verið að bjóða bæði vændi og eiturlyf. Ég hef bara aldrei verið jafn vinsæll meðal kvennana eins og þessa daga i þessari borg....... Og ég hef líka aldrei séð jafn mikið af rottum í einni borg..... En mér fannst ótrúlega skemmtilegt að hafa komið þangað, mér leið aldrei illa eða var hræddur því fólkið var almennt mjög almennilegt og hjálpsamt. Maturinn góður og vínið líka. Eina sem var leiðinlegt var að það rigndi eins og helt væri úr fötu í tvo daga þannig að það var varla hundi út sígandi þannig að ég gerði minna en ég hefði viljað skoða, en ennþá frekari ástæða til að koma þangað bara aftur síðar.

Kambódía á líka mjög dökka sögu en á árunum 1975 - 1979 komust Rauðu Kmerarnir til valda í landinu og frömdu gríðarleg fjöldamorð, stunduðu pyntingar og fóru hræðilega illa með eigin íbúa. Í phnom Penh hafa þeir gert þessari dimmu sögu góð skil, annars vegar með því að búa til safn þar sem alræmdar fangabúðir og pyntingabúðir voru til húsa í húsnæði sem áður hafði verið skóli, og hins vegar hafa þeir opnað minningagarð rétt utan við borgina þar sem fundust fjöldagrafir og fólk var tekið af lífi, nefnist The Killing Fields. Ég ákvað að kynna mér þessa sögu nánar og heimsótti bæði fangabúðirnar og aftökustaðina. Það er svo magnað þegar maður kemur á svona staði að það virkilega snertir við manni, öll þessi mannvonska sem átti sér stað, öll þessi líf sem töpuðust, allt út af völdum og valdabaráttu, alveg hryllilegt. Ég vara við myndum sem koma hér að neðan, þær eru óhugnalegar. Í minningareitnum er Búddalíkneski og þar hefur verið safnað saman höfuðkúpum þeirra sem líflátnir voru og er það sagt vera til þess að heiðra minningu þeirra. Þarna inn var einstaklega sérstakt að koma.

Til að draga þetta saman í lokin. Kambódía er æðislegt land, svakalega skemmtilegt að koma þangað, mikil saga, bæði góð og slæm og forvitnilegar borgir að skoða. Núna held ég hins vegar ferðalaginu áfram og flaug rétt áðan til Bangkok í Tailandi þar sem ég ætla að njóta alls sem sú borg hefur upp á að bjóða næstu daga áður en ég held svo inn í Norður-Tailand. Hafið það sem allra best og takk fyrir lesturinn :)



1 Comment


Elva Hrund Ingvadóttir
Elva Hrund Ingvadóttir
Jan 12, 2023

Takk fyrir skemmtilegar frásagnir og kynningu á þessum framandi stöðum á ferðalagi þínu :)

Like
bottom of page