top of page

Nýja Sjáland, Suðureyjan, síðari hluti

  • gardarorn4
  • Mar 8, 2023
  • 5 min read

Áfram held ég að segja ykkur frá ævintýrum mínum á Suðureyjunni, og það hafa verið hressilegir dagar, og ekki allt farið samkvæmt áætlun ;) Síðasta blogg endaði ég á mynd af fallegum jökli, byrjum þetta blogg með mynd tekna daginn eftir af sama jökli, en það sást mikið betur til hans daginn eftir :)

Jæja, sunnudagur og tími til kominn að halda áfram upp Vesturströndina og kveðja þennan fallega bæ sem liggur við Franz Josef jökulinn. Næsti áfangastaður var Westport, en á leiðinni þangað var að sjálfsögðu margt stórkostlega fallegt að sjá og mörg stopp. Ég spurði í móttökunni hvort það væri eitthvað sem væri svona "Must see" á leiðinni og sagði konan mér að ég yrði að fara og skoða Hokitika Gorge. Að sjálfsögðu fór ég eftir hennar ráðleggingum, en um var að ræða sirka klukkutíma útúrdúr og svo klukkutíma göngu í kringum svæðið, og vá vá, þetta var svo sannarlega stórmagnað svæði. Sjáið litinn á vatninu í ánni, aldrei séð svona fallegan lit á vatni áður, stórkostlegt. Umhverfið í kring var líka svakalega fallegt. Þarna var líka þessi skemmtilega henigbrú sem hristist aðeins í rigningunni.

Hokitika er svo lítill bær þarna rétt hjá sem var gaman að skoða, mikið af alls konar minjagripabúðum og ég auðvitað þurfti aðeins að versla við listamann sem málar á steina. Skemmtilegar og fallegar byggingar þarna í bænum.

Áfram gakk, meðfram Vesturströndinni og Tasman hafinu. Margir fallegir útsýnisstaðir á leiðinni yfir hafið og strandlengjuna. Stoppaði á skemmtilegum stað sem nefnist Pancake Rocks og þar voru líka fullt af því sem þeir kalla Blowholes, þar sem sjórinn gusast inn og út aftur, man ekki íslenska orðið yfir þetta. Ótrúlega skemmtilegir þessir "pönnukökusteinar".

Loks var ég kominn á næturstað, en ég gisti rétt fyrir utan bæinn Westport, í ótrúlega krúttulegum kofa með öllu sem ég þurfti, fallegt umhverfi og svakalega stjörnubjart um kvöldið. Sjaldan sofið jafn vel. Skrapp aðeins til Westport, ekkert sérstakur staður og lítið við að vera þar. Ég hef ekki ennþá séð Kiwi fuglinn sem er þekktasti fuglinn hér, en í staðinn sá ég fugl sem heitir Weka og er bara hér á Nýja Sjálandi og er ófleigur fugl eins og Kiwi og ekkert ólíkur honum. Þessi fugl spígsporaði þarna um allt í kringum gististaðinn minn og voru mjög gæfir. Þennan fugl má víst veiða, og ætli þeir borði hann ekki, en það má veiða 5000 fugla á ári.

Mánudagur, fallegur og sólríkur dagur þegar ég vaknaði. Þennan daginn lá leið mín til Nelson, sem er önnur stærsta borgin á Suðureyjunni, þar búa um 50 þúsund manns. Á leiðinni til Nelson var vissulega margt að sjá og skoða. Ég byrjaði á að stoppa við lengstu hengibrú í Nýja Sjálandi þar sem maður gat rölt yfir og svo skemmtilegan hring og svo var val um að fara aftur yfir brúnna eða fara með svona Zipline. Ég ákvað að fara bara yfir hana aftur. Var alveg pínku scary að fara yfir hana, sveiflaðist til og frá og maður sá að margir áttu erfitt með að fara yfir sökum lofthræðslu. Mér fannst þetta samt bara ótrúlega skemmtilegt :) Stoppaði svo aðeins í litlum bæ sem heitir Murchison og fékk mér þetta ljúfenga pæ.

Svo var ég allt í einu kominn til Nelson, þar sem ég átti herbergi á hosteli í eina nótt. Daginn eftir átti ég svo ferjumiða frá Picton, 90 mín frá Nelson. Hostelið var bara ágætt, litríkt og skemmtilegt. Fór svo og skoðaði borgina, en þessi staður var gerður að borg í kringum 1850 vegna þess að þarna var komin stór kirkja (Cathedral) og því varð að gera bæinn að borg. Kirkjan var mjög falleg, sem og allar byggingarnar í borginni. Það var ótrúlega skemmtileg stemning, fólk alveg sérstaklega vingjarnlegt og ánægjulegt að rölta um borgina, kíkja í gallerí og njóta lífsins í almenningsgarðinum, "The Queen Garden".

Svo kom að því að síminn hjá mér fór að pípa þarna um klukkan 18 á mánudagskvöldinu. Skilaboðin sögðu mér að vegna bilunar í ferjunni sem ég átti að fara með daginn eftir myndi ferðin falla niður og þeir hefðu því miður engar aðrar lausnir en að endurgreiða mér miðann að fullu, engar aðrar ferðir væru í boði næstu daga. Þarna voru góð ráð dýr því ég auðvitað var búinn að ákveða að keyra um Norðureyjuna og átti að skila bílnum í Auckland í næstu viku. Ég tékkaði á hinu ferjufyrirtækinu en þar var ekkert laust heldur alla vikuna. Ég skoðaði flug og öll flug frá Nelson voru fullbókuð á þriðjudeginum, en möguleiki á flugi á miðvikudeginum, fyrir ansi háar upphæðir. Þá hringdi ég á bílaleiguna til að kanna hvað ég gæti gert varðandi bílinn, því mögulega hefðu þeir viljað að ég kæmi með hann aftur til Christchurch, sem hefði verið sex tíma keyrsla. Þeir samþykktu hins vegar að ég myndi skila bílnum í Nelson en þeir ættu enga bíla á Norðureyjunni, hvorki í Wellington né Auckland. Þeir sögðust samt ekki ætla að rukka mig nema fyrir tímann sem ég notaði bílinn. Þar sem ég varð að vera kominn til Auckland á laugardag og ég var búinn að missa bílinn þá fannst mér allt eins gott að fljúga til Auckland í staðinn fyrir Wellington, þarna á milli er 12 tíma lestarferð sem ég nennti ekki. Ég bókaði mig því í flug á miðvikudeginum (í dag) frá Nelson til Auckland. Svo var að skoða með gistingu í eina nótt í viðbót í Nelson, en allt var fullt á hostelinu, en ég fékk sem betur fer hótelherbergi á öðru hóteli. Ég átti því annan dag í Nelson, nýtti þann dag í að fara á tvö söfn, annars vegar sögusafn Nelson og hins vegar Byggðarsafn sem var alveg svakalega skemmtilegt. Búið að byggja upp lítið þorp þar sem þjónustan var sett upp, sjúkrahús, verslanir, lestarstöð, kirkja og fleira, ótrúlega gaman að rölta þarna um.

Miðvikudagur, og loksins kominn tími til að komast yfir á Norðureyjuna. Það tókst í tilraun tvö, með flugi, fínasta flug, rúmlega klukkutíma langt og náði ég að sjá aðeins yfir Norðureyjuna á leiðinni. Ég er kominn á hótel í Auckland, þremur dögum fyrr en ég ætlaði, en það er allt í lagi, ég geri gott úr þessu öllu saman, skelli mér í dagsferðir og nýt borgarinnar, en hún er stærsta borg landsins með um eina og hálfa miljón íbúa, hins vegar er hún ekki höfuðborgin, það er Wellington. Vissulega er mjög fúlt að hafa ekki getað keyrt um eyjuna og séð allt sem ég ætlaði mér, Wellington, Napier, Rotuora og fleira. En þá "neyðist" ég bara til að koma aftur hingað síðar :) Ég gat fengið bílaleigubíl hjá einu fyrirtæki fyrir 200 þúsund fyrir fimm daga...... nei takk......

Jæja, ætla að fara og fá mér að borða. Næsta blogg verður þá um Norðureyjuna í byrjun næstu viku. Þangað til, góðar stundir :)


Kommentare


bottom of page