Undirbúningur fyrir heimsferðina
- gardarorn4
- Oct 23, 2022
- 2 min read
EIns og margir vita þá hef ég ákveðið að ferðast um heiminn i eitt ár. Ég mun leggja í hann þann 11. nóvember næstkomandi og byrja hjá foreldrum mínum á Spáni áður en ég held til Mið-Austurlanda. Asía verður fyrsta heimsálfan sem heimsótt verður, meðal annars Kúveit, Barein, Abu Dhabi, Azerbaijan, Kasakstan, Kórea, Tævan, Kambódía, Víetnam, Tæland og Laos, en auk þess munu eflaust fleiri lönd bætast við planið.
Það er að mörgu að huga þegar maður tekur svona stóra akvörðun, að hætta í launaðri vinnu í heilt ár til að ferðast um heiminn. Talsverður kostnaður fylgir slíku ferðalagi og þarf að gera ráðstafanir í tengslum við það að vera tekjulaus í heilt ár. Ég tók þá ákvörðun að selja íbúðina mína, þar sem peningar mínir eru bundnir þar og þannig gat ég losað um talsvert fjármagn til að nota á ferðalaginu.
Eins þarf að huga að bólusetningum, taka með lyf fyrir malaríusvæði og kynna sér ástandið í hverju landi fyrir sig, hvort öruggt sé að ferðast þar um eða eitthvað sem ber að varast. Fyrir sum lönd þarf vegabréfaáritanir sem borgar sig að undirbúa með góðum fyrirvara.
Flug, hótel og ýmsar ferðir þarf að panta fyrirfram á mörgum stöðum, en auðvitað er líka hægt að taka sénsinn og vona að maður geti útvegað sér gistingu þegar komið er á staðinn. Ég tók ákvörðun um að bóka talsvert en einnig að láta ýmislegt ráðast, eins og með sumar gistingar og dagsferðir.
Á næstu vikum og mánuðum mun ég skrifa um hvert land fyrir sig, segja frá því sem á daga mína hefur drifið, kosti og galla, uppákomur og já, allt sem ég held að fólk hefði gaman af að lesa um :)
Verður gaman að fá að fylgjast með :)
Kv, Guðrún Jóna